Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 81/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 81/2021

Miðvikudaginn 16. júní 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 10. febrúar 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. febrúar 2021 þar sem kæranda var synjað um greiðslu bráðabirgðameðlags. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni 24. janúar 2021, sótti kærandi um bráðabirgðameðlag með X dætrum sínum frá 25. janúar 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. febrúar 2021, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að stofnunin hafi eingöngu milligöngu um bráðabirgðameðlag á meðan unnið er að feðrun barns og öflun meðlagsákvörðunar og þar sem dætur kæranda séu feðraðar hafi framangreint skilyrði ekki verið uppfyllt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. febrúar 2021. Með bréfi, dags. 16. febrúar 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 1. mars 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. mars 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að umsókn hennar um meðlag og bráðabirgðameðlag hjá Tryggingastofnun hafi verið hafnað. Málin séu þannig að kærandi hafi verið ein með dætur sínar frá byrjun árs X. Barnsfaðir hennar hafi flutt út og fært lögheimilið sitt annað. Í framhaldinu hafi kærandi sótt um skilnað. Barnsfaðir kæranda hafi hvorki séð stelpurnar né borgað krónu með þeim síðan. Það sem virðist stöðva umsókn kæranda sé að þessi sami maður hafi neitað að skrifa undir skilnaðarpappíra en það sé búið að þingfesta það mál og bíði það frekari málaferla. Það sé augljóst að börnin hafi verið í umsjá kæranda og á hennar lögheimilli frá X. Með umsókninni hafi kærandi látið fylgja afrit úr hjónaskilnaðarbók og þingfestingu máls ásamt staðfestingu frá lögmanni.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun stofnunarinnar á greiðslu bráðabirgðameðlags til kæranda.

Kærandi hafi sótt um greiðslu bráðabirgðameðlags með X dætrum sínum með umsókn 24. janúar 2021. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 9. febrúar 2021, hafi umsókn kæranda verið synjað þar sem börnin séu feðruð en stofnuninni sé einungis heimilt að greiða bráðabirgðameðlag á meðan unnið sé að feðrun barns.

Kærandi hafi áður sótt um milligöngu meðlagsgreiðslna með umsókn, dags. 12. ágúst 2020. Með bréfi sama dag til kæranda hafi Tryggingastofnun óskað eftir afriti af meðlagsákvörðun. Engin meðlagsákvörðun hafi borist.

Kveðið sé á um það í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Í 3. mgr. sömu greinar segi að eftir að sýslumaður hafi veitt viðtöku ósk frá móður um að aflað verði faðernisviðurkenningar hjá lýstum barnsföður geti hún fengið meðlag greitt með barninu innan þeirra marka er 20. gr. laganna setji.

Í 12. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga sé fjallað um bráðabirgðameðlag samkvæmt 3. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar. Þar segi í 1. mgr. að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða bráðabirgðameðlag á meðan aflað sé faðernisviðurkenningar hjá lýstum barnsföður, sbr. 3. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar. Með umsókn þurfi að fylgja staðfesting frá sýslumanni um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar eða staðfesting um að faðernismál hafi verið höfðað fyrir dómi

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Hlutverk Tryggingastofnunar sé að hafa milligöngu um greiðslu meðlags þegar ákvörðun hafi verið tekin með lögmætum hætti. Leggi foreldri fram löggilda meðlagsákvörðun beri Tryggingastofnun samkvæmt 63. gr. laga um almannatryggingar og 67. gr. barnalaga að hafa milligöngu um greiðslu meðlags, allt að 12 mánuði aftur í tímann.

Kærandi hafi 12. ágúst 2020 sótt um milligöngu Tryggingastofnunar á greiðslu meðlags með dætrum sínum. Þar sem meðlagsákvörðun hafi ekki fylgt með umsókn hafi Tryggingastofnun óskað eftir slíkri ákvörðun með bréfi, dagsettu sama dag. Í bréfinu hafi komið fram að ef meðlagsákvörðun bærist ekki fyrir 2. september 2020 gæti Tryggingastofnun ekki afgreitt umsóknina og málinu væri þá vísað frá. Engin meðlagsákvörðun hafi borist en Tryggingastofnun hafi einungis heimild til að hafa milligöngu á meðlagi ef fyrir liggi löggild meðlagsákvörðun.

Kærandi hafi sótt um greiðslu bráðabirgðameðlags með dætrum sínum með umsókn 24. janúar 2021. Með umsókninni hafi fylgt endurrit úr hjónaskilnaðarbók og þingbók sem sýni að kærandi standi í skilnaði við barnsföður sinn, þ.e. föður dætra sinna. Bráðabirgðameðlag sé einungis greitt á meðan unnið sé að feðrun barns og þar sem dætur kæranda séu feðraðar hafi Tryggingastofnun enga heimild til að greiða kæranda bráðabirgðameðlag. Því hafi umsókn kæranda verið synjað.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. febrúar 2021 um að synja umsókn kæranda um bráðabirgðameðlag með [...] dætrum sínum frá 25. janúar 2019.

Kveðið er á um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar ríkisins í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þar segir að Tryggingastofnun ríkisins sé skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar getur hver sá sem fær úrskurð um meðlag með barni, sem hann hefur á framfæri sínu, snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags og annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama gildir þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga. Í 3. mgr. sömu greinar er kveðið á um það að eftir að sýslumaður hafi veitt viðtöku ósk frá móður um að aflað verði faðernisviðurkenningar hjá lýstum barnsföður geti hún fengið meðlag greitt með barninu innan þeirra marka er 20. gr. laganna setji.

Á grundvelli 70. gr., sbr. 6. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar, var sett reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga. Í 1. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar segir að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða bráðabrigðameðlag samkvæmt 3. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar á meðan aflað er faðernisviðurkenningar hjá lýstum barnsföður. Þá segir að með umsókn þurfi að fylgja staðfesting frá sýslumanni um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar eða staðfesting um að faðernismál hafi verið höfðað fyrir dómi.

Kærandi byggir á því að barnsfaðir hennar hafi ekki staðið straum af framfærslu barna þeirra eftir að hann gekk út af heimili þeirra í byrjun árs X og að hjónaskilnaðarmál þeirra sé nú komið fyrir dómstóla. Í gögnum málsins liggur meðal annars fyrir afrit úr þingbók Héraðsdóms Reykjaness, dags. 6. janúar 2021, vegna hjónaskilnaðarmáls.

Heimild til greiðslu bráðabirgðameðlags er samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði bundin því skilyrði að að sýslumaður hafi veitt viðtöku ósk frá móður um að aflað verði faðernisviðurkenningar hjá lýstum barnsföður. Tryggingastofnun ríkisins synjaði umsókn kæranda á þeirri forsendu að dætur kæranda væru feðraðar. Þegar af þeirri ástæðu að dætur kæranda eru feðraðar er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði fyrir greiðslu bráðabirgðameðlags sé ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Þá liggur ekki fyrir úrskurður sýslumanns um bráðabirgðameðlag á grundvelli 1. mgr. 59. gr. barnalaga nr. 76/2003. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu bráðabirgðameðlags er því staðfest.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. febrúar 2021 um að synja umsókn kæranda um bráðabirgðameðlag er staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um bráðabrigðameðlag, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum